Sport

Wenger slær á létta strengi

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, er ekki vanur að vera mikill háðfugl, en þegar hann var spurður út í ráðningu grannaliðsins Tottenham á Damien Comolli á dögunum, sá hann ástæðu til að slá á létta strengi. Tottenham réði Comolli sem yfirmann knattspyrnumála í vikunni, í stað Frank Arnesen sem fór til Chelsea, en Comolli þessi var á mála hjá Arsenal í nokkur ár áður en hann fór til Frakklands í fyrra. "Hann verður liði Tottenham eflaust góður fengur, því hann kann allt njósnakerfið okkar utanbókar," sagði Wenger kaldhæðnislega, en Comolli átti þátt í að fá margar af helstu stjörnum liðsins til London frá meginlandinu. "Eini gallinn á þessu er að við getum ekki farið fram á að fá bætur fyrir hann," sagði Wenger hæðnislega. Comolli fór frá Arsenal til franska liðsins St Etienne og var þar í eitt ár, en Tottenham nældi í hann nú í vikunni. "Sú staðreynd að hann vann fyrir okkur á eftir að hjálpa Tottenham mikið," sagði Wenger.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×