Innlent

Dóms að vænta vegna græns skyrs

Næsta mánudag er dóms að vænta í máli Örnu Aspar Magnúsardóttur, en hún er ein þremenninganna sem slettu grænlituðu skyri á gesti álráðstefnu á hótel Nordica í sumar. Hún játar aðild sína en segir að ekki hafi vísvitandi verið slett á tæki eða húsmuni. Paul Gill, Breti sem þátt tók í slettunum, hefur þegar verið dæmdur í skilorðsbundið fangelsi, en skaðabótakröfur á honum voru felldar niður. Þriði maðurinn sem ákærður er fyrir þátttöku sína, Ólafur Páll Sigurðsson, neitar sakargiftum, þ.e. stórfelldum eignaspjöllum og húsbroti. Verða því leidd fram vitni í máli hans þegar það fer í aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fulltrúi lögreglu segir að framburður starfsmanns hótelsins sem reyndi að hindra Ólaf Pál í að ráðast í salinn sýni fram á húsbrotið. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi í gær. Fram kom að fallið hafi verið frá meginþorra bótakrafna í málinu, sem náðu rúmum 2,2 milljónum króna. Hlutir sem taldir voru ónýtir reyndust bara skemmdir og ekki talið svara kostnaði að meta þá. Þó er krafist tæpra 613 þúsunda króna vegna hreinsunar í salnum og aukavinnu starfsmanna hótelsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×