Sport

Van Persie fær eins leiks bann

NordicPhotos/GettyImages
Hollenski sóknarmaðurinn Robin van Persie hjá Arsenal fær eins leiks bann fyrir rauða spjaldið sem hann fékk að líta í Meistaradeildinni í vikunni, þegar hann sparkaði óviljandi í andlitið á einum leikmanna FC Thun. Vonir Arsenal um að leikmaðurinn slyppi við bann eru því að engu orðnar, því mörgum þótti rauða spjaldið nokkuð strangur dómur og vildu meina að hann ætti ekki að fá bann fyrir það sem sannað þótti að væri óviljaverk. "Það þýðir ekkert að væla yfir orðnum hlut. Þetta kann að hafa verið óvart, en þetta var kannski dálítið glannalegt af honum og því verðum við bara að sætta okkur við þetta," sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal, sem þarf að vera án Van Persie og Thierry Henry í næsta Evrópuleik. Dennis Bergkamp ætlar því að leggja á sig sjö klukkustunda ökuferð til að vera með liðinu í næsta leik, en hann stígur sem kunnugt er ekki fæti upp í flugvél eins og frægt er orðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×