Skoðun

Flugvöllur á krossgötum

Reykjavíkurflugvöllur - Árni Þór Sigurðsson borgarfulltrúi Nú virðast allt í einu allir flokkar í borgarstjórn vera orðnir sammála um að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni verði að fara. Sjálfstæðismenn eru jafnvel farnir að tala hispurslaust um það, enda þótt þeir reyni að gera fyrirhugaða samkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar eins tortryggilega og þeim er frekast unnt. Líklega eru þeir þó aðeins að reyna að slá pólitískar keilur og ekki gott að átta sig á því hvað þeir raunverulega meina. En lítum aðeins nánar á flugvallarmálið. Reykjavíkurlistinn tók þá ákvörðun á sínum tíma að efna til allsherjaratkvæðagreiðslu meðal borgarbúa um skipulagslega framtíð Vatnsmýrarinnar. Niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu var að meirihluti kjósenda vildi að flugvöllurinn myndi víkja. Í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur til ársins 2024 er við þetta miðað. Þar er gert ráð fyrir að stysta flugbrautin (svokölluð NA-SV flugbraut) víki á tímabilinu 2005-2008, að norður-suður flugbrautin víki fyrir árið 2016 en á síðasta hluta skipulagstímans sé rými fyrir austur-vestur flugbrautina. Þannig myndi flugvöllurinn hopa í áföngum. Jafnframt er gert ráð fyrir því að fram fari alþjóðleg hugmyndasamkeppni um nýtingu Vatnsmýrarinnar. Þegar skipulagið var í vinnslu var Sjálfstæðisflokkurinn andvígur því að flugvellinum yrði gert að hopa. Það á bæði við um sjálfstæðismenn í borgarstjórn og ríkisstjórn. Nú er að heyra að annað hljóð sé komið í strokkinn, jafnvel samgönguráðherra telur koma til álita að skoða aðra kosti fyrir flugvöll. Batnandi mönnum er best að lifa. Hins vegar má ekki gleyma því að í tengslum við aðal- og svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins var unnin ítarleg vinna um flugvallarmálið og margvíslegir kostir um aðra staðsetningu skoðaðir. M.a. hugmynd um flugvöll á Lönguskerjum. Sú hugmynd fékk ekki góða umsögn, hvorki frá umhverfislegu, fjárhagslegu eða flugrekstrarlegu sjónarmiði. Ég er þeirrar skoðunar að sú hugmynd sé enn jafn vond og hún var þá. Við eigum ekki að sóa milljarðatugum í byggingu nýs flugvallar í nágrenni höfuðborgarinnar. Við eigum þvert á móti að nýta þá ágætu fjárfestingu sem er til staðar í Keflavík og byggja þar upp innanlandsflugið. Samhliða á þá að bæta enn frekar samgöngur milli flugvallarins í Keflavík og höfuðborgarsvæðisins. Þegar hafa verið gerðar nokkrar bætur hvað varðar Reykjanesbrautina en enn betra væri að fjárfesta í vistvænum almenningssamgöngum. Það er þrátt fyrir allt ekki nema 40 km og þá vegalengd er hægt að stytta, og ferðatíminn þarf ekki að vera nema 20-30 mín. Og úr því að svo virðist sem þverpólitísk samstaða geti tekist um að flugvöllurinn fari, þá eigum við að einhenda okkur í það að semja við ríkið um að flýta þeim áformum. Við þurfum ekkert endilega að bíða til ársins 2016. Þegar upp verður staðið þá munu allir hagnast á slíkri ákvörðun. Ekki síst mun umhverfi okkar og komandi kynslóðir hagnast. Brottflutningur flugvallarins í Vatnsmýrinni mun færa okkur einstakt tækifæri til að skipuleggja flugvallarsvæðið með alveg nýjar áherslur að leiðarljósi. Við eigum kost á að skipuleggja og byggja sjálfbæra miðborgarbyggð þar sem manneskjan er í forgrunni en ekki bíllinn, þar sem hjóla- og göngustígar eru vel skipulagðir og sjálfsagðir og þar sem sorpmálin eru skipulögð með tilliti til skynsamlegrar flokkunar og endurvinnslu. Og þar sem við tryggjum grænt belti frá miðborginni að Nauthólsvík en byggðin verður þétt, þó ekki endilega háreist og þar sem við blöndum saman íbúðabyggð og atvinnustarfsemi, ekki síst þeirri sem tengist háskólunum, rannsóknum og vísindum. Þegar Vatnsmýrin byggist upp eigum við ennfremur að setja nýju Hringbrautina í stokk og nýta landið sem hún tekur nú betur og tengja þá betur saman nýju byggðina í Vatnsmýri við Þingholtin og miðborgina. Þau tækifæri sem felast í Vatnsmýrinni fyrir þróun höfuðborgarinnar eru afar dýrmæt. Höfuðborgarsvæðið hér á í alþjóðlegri samkeppni við aðrar borgir og borgarsvæði. Það eru hagsmunir landsins alls að vel takist til og að Ísland eigi sér öfluga og sterka höfuðborg sem stenst þá hörðu samkeppni sem borgir eiga í um fólk og fyrirtæki. Sú tíð er löngu liðin að átakalínurnar í byggðaþróuninni séu milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Það eru sameiginlegir hagsmunir landsbyggðar og höfuðborgar að hlúa hvort að öðru því ella missum við dýrmætustu auðlindina okkar, fólkið sjálft, úr landi.



Skoðun

Sjá meira


×