Innlent

Samkomulag í Kópavogi

Starfsmannafélag Kópavogs og launanefnd sveitarfélaga náðu nú á fjórða tímanum samkomulagi vegna nýrra kjarasamninga bæjarstarfsmanna Kópavogs. Fulltrúar starfsmannafélags Kópavogs og fulltrúar launanefndar hafa haldið hvern fundinn af öðrum undanfarna daga og á tímabili leit ekki út fyrir að samkomulag næðist. Í fyrradag bar enn mikið á milli deiluaðila og flest benti til að boðað yrði til verkfalls í næstu viku. Á maraþonfundi í gær náðist hins vegar loks viðræðugrundvöllur. Þá sátu fulltrúar beggja aðila á fundi hjá ríkissáttasemjara fram á nótt. Klukkan átta í morgun hófust svo fundarhöld á ný og tuttugu mínútur yfir þrjú var svo skrifað undir. Nýi kjarasamningurinn verður borinn undir bæjarstarfsmenn 26. október, eða eftir viku. Jófríður Sigfúsdóttir, formaður starfsmannafélags Kópavogs, segist fastlega búast við að samningurinn verði samþykktur. Hún segir hann á svipuðum nótum og samflotssamning sem fjórtán stéttarfélög í Kópavogi hafi nýverið skrifað undir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×