Innlent

62 prósent borgarbúa vilja fremur Vilhjálm

Sextíu og tvö prósent borgarbúa vilja heldur sjá Vilhjálms Þ. Vilhjálmsson í fyrsta sæti á lista sjálfstæðismanna í næstu borgarstjórnarkosningum en Gísla Martein Baldursson samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem IMG Gallup gerði fyrir stuðningsmenn Vilhjálms.

Prófkjör sjálfstæðismanna fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor hefst formlega á morgun og stendur einnig á laugardag, en utankjörstaðaratkvæðagreiðsla hefur staðið frá 18. október. Samkvæmt könnuninni vilja 62 prósent Reykvíkinga að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verði oddviti sjálfstæðismanna í kosningunum en 38 prósent treysta betur keppinauti hans um forystusætið, Gísla Marteini Baldurssyni.

Þá leiðir könnunin í ljós að 54 prósent þeirra sem telja líklegt að þeir taki þátt í prófkjörinu vilja fremur að Vilhjálmur verði í forystusætinu, en tekið skal fram að af rúmlega átta hundruð manns sem svöruðu telja aðeins um 200 líklegt að þeir taki þátt í prófkjörinu. Á kjörskrá eru á bilinu 16 til 17 þúsund manns.

Samkvæmt skoðanakönnuninni nýtur Vilhjálmur meiri hylli bæði meðal kvenna og karla en Gísli Marteinn, en 59 prósent kvenna vilja frekar að Vihjálmur leiði lista sjálfstæðismanna og 65 prósent karla. Þá nýtur Vilhjálmur meira fylgis meðal allra aldurshópa nema 16-24 ára og fer stuðningur við Vilhjálm vaxandi með hækkandi aldri kjósenda.

Skoðanakönnunin var gerð dagana 5.-31. október, úrtakið voru Reykvíkingar á aldrinum 16-75 ára og svarhlutfall 62 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×