Innlent

Afsláttakortakerfi vegna læknishjálpar óréttlátt

Afsláttarkortakerfi vegna læknishjálpar er mjög óréttlátt eins og það er í dag að mati Margrétar Frímannsdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, og bitnar það verst á þeim sem eru með langvarandi sjúkdóma.

Ætlunin er að á næsta ári verið komið á sjálfvirkt kerfi, þannig að þeir sem eiga rétt á afsláttarkorti vegna læknisþjónustu, fái afsláttarkortin sjálfkrafa send heim. Í umræðum á Alþingi í gær kom fram að mun æskilegra væri að miða við þann tíma sem sjúklingar veikjast en ekki almannaksárið við útgáfu afsláttarkorta og kortin gætu þannig tekið gildi í hvaða mánuði ársins sem er. Margrét Frímannsdóttir segir kerfið í dag ósanngjart.

Margrét tekur sem dæmi einstakling sem greinist með krabbamein í byrjun desember. Hann þarf að fara í mjög kostnaðarsamar rannsóknir og um miðjan desember er hann kominn með afsláttarkort. Kortið rennur hins vegar út um áramótin svo hálfum mánuði eftir að hann fékk kortið hættir það að gilda. Kerfið í dag bitni einna verst á þeim sem eru með langvarandi sjúkdóma.

Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, sagði í umræðunum í gær að rætt hefði verið um að afsláttarkort vegna læknisþjónustu myndu gildi frá útgáfudegi en það hefði ekki komið til framkvæmdar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×