Innlent

Kröfðust frestunar vegna fjarveru ráðherra

Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust þess að umræðum um fjárlagafrumvarpið yrði frestað í dag þar sem þrír ráðherrar voru erlendis og tveir fjarverandi af öðrum orsökum. Sérstaka reiði vakti að menntamálaráðherra væri í Senegal.

Meirihluti allsherjarnefndar leggur til að afgangur af fjárlögum verði 19,6 milljarðar, eða tæpum fimm og hálfum milljarði meiri en fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar.

Þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna brugðust hart við fjarveru ráðherranna og vildu fresta umræðunni að óbreyttu. Steingrímur J, Sigfússon, formaður VG, sagði að t.d. þyrfti heilbrigðisráðherra að útskýra hvernig hann ætlaði að reka almannatryggingakerfið á næsta ári með þeim fjármunum sem hann fengi.

„Hvar er agavaldið á þessu heimili?" spurði Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar. Hann tiltók að blöðin væru full af ádeilu á menntamálaráðherra sem væri fjarverandi. Hann sagðist furða sig á því að ráðherrann skyldi „flatmaga í Senegal á einhverjum sérkennilegum fundi", sem hlyti að vera miklu minna virði en menntamál íslensku þjóðarinnar. Össur sagði þetta mikilvægasta dag þingsins þegar fjárveitingar kæmu til umræðu.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði ráðherraembætti fylgja skyldur um samskipti við aðrar þjóðir og sagði að honum fyndist óþarfi að tala í háði um önnur lönd, hvað þá Afríkuríki. Og Halldór benti á að fjármálaráðherra væri til svara um öll atriði fjárlaga. Það væri nýtt ef allir ráðherrar þyrftu að vera viðstaddir.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×