Innlent

Valgerður segir Kristin H. vera andstæðing sinn

MYND/GVA

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar stilla þingmönnum í sífellu upp við vegg, segir Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Viðskipta- og iðnaðarráðherra, flokksystir Kristins, kallar hann andstæðing í pistli á heimasíðu sinni.

Kristinn gagnrýndi Valgerði Sverrisdóttur, viðskipta- og iðnaðarráðherra, harðlega á heimasíðu sinni á föstudag í tengslum við málefni Byggðstofnunar og sakaði hana meðal annars um að standa á sama um stofnunina og landsbyggðina. Kristinn heldur áfram að fjalla um málið í pistli sem birtist á heimasíðunni í gær og segir hjólin loksins farið að snúast eftir að hann hafi fundið að aðgerðaleysi ráðherrans og ríkisstjórnarinnar. Og þingmaðurinn gerir vinnubrögð ráðherra almennt að umtalsefni sínu og segir mörg dæmi þess að þeir sniðgangi alþingismenn við undirbúning mála. Í þættinum Íslandi í bítið í morgun sagði hann þolinmæði sína á þrotum hvað þetta varðar en sagðist þó aðspurður ekki hafa hugleitt að ganga úr þingflokknum ef vinnubrögð ráðherranna myndu ekki breytast.

Í hádegisviðtalinu á NFS á föstudaginn sagði iðnaðarráðherra að framsóknarmönnum þyki ólíðandi að Kristinn skuli sífellt ráðast á samflokksmenn sína. Þá hafði hún á orði að hún þyrfti þó ekki vera að eyða of mörgum orðum í hans hegðun - hún dæmi sig sjálf. Þó finnur hún sig nú knúna til að hafa enn fleiri orð um Kristin því í pistli á heimasíðu sinni í dag kallar hún flokksbróður sinn „andstæðing" og segir hann kjarkaðan að ræða málefni Byggðastofnunar, með tilliti til aðskilnaðar hans við stofnunina fyrir þremur árum þegar hann hætti sem stjórnarformaður. Undir það síðasta hafi Byggðastofnun nefnilega verið óstarfhæf vegna deilna hans við starfsfólk.

Og nú er bara að sjá hvort skærur flokksystkinanna haldi ekki áfram og Kristinn svari flokksystur sinni í bráð, hvort sem er í ræðu eða riti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×