Íslenski boltinn

Styrkja starfsemi KSÍ í heild sinni

Eggert Magnússon og Geir Þorsteinsson sjást hér kátir eftir undirskrift samnings við samstarfsaðila sína.
Eggert Magnússon og Geir Þorsteinsson sjást hér kátir eftir undirskrift samnings við samstarfsaðila sína. Mynd/Stefán Karlsson

Samstarfsaðilar Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, eru sjö talsins. KSÍ hefur tengt slagorðið „Alltaf í boltanum“ við samstarfsaðilana og takmarkið er samkvæmt heimasíðu sambandsins að fyrirtækin sjö verði sýnileg í allri starfsemi KSÍ.

Fréttablaðið hefur sent fyrirspurn til KSÍ um hversu mikið af styrktarfé sambandsins renni til landsliða kvenna en því erindi fæst ekki svarað. Er þá bæði spurt hvað varðar fé frá UEFA og FIFA sem og frá þessum sjö samstarfsaðilum.

Fréttablaðið hefur einnig sent þessum samstarfsaðilum fyrirspurn þar sem meðal annars var spurt um eðli styrktarsamningsins við KSÍ og hvort fyrirtækið ætlaðist til að peningarnir sem frá því koma væru notaðir til handa karlalandsliðinu, öllum landsliðum Íslands eða rekstri KSÍ yfir höfuð.

Fjögur fyrirtæki af sjö - Landsbankinn, Mastercard, Vodafone og Vífilfell - höfðu svarað fyrirspurn blaðsins í gær og voru svörin öll á þá leið að ætlast væri til að peningar frá fyrirtækinu rynnu til starfsemi sambandsins í heild sinni. Stærð og umfang samninganna var þó sagt trúnaðarmál.

Ekki höfðu borist svör frá Icelandair, VÍS og Íslenskum Getraunum í gær.- hbg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×