Jens Lehmann, markvörður Arsenal, hefur gefið það út að ef Englendingar og Þjóðverjar komi til með að mætast á HM í sumar, muni Þjóðverjar hafa betur vegna álagsins sem er á ensku leikmönnunum í deildinni heimafyrir. Þá hefur hann sínar skoðanir á því hverjir eru bestu leikmenn heims í dag.
"Ég held að við Þjóðverjar vinnum Englendinga ef liðin mætast á HM í sumar. Enska liðið er vissulega mjög gott, en ég held að erfitt tímabil í ensku deildinni taki sinn toll af leikmönnunum á meðan við njótum góðs af vetrarfríinu," sagði Lehmann, sem þykir mat manna á bestu knattspyrnumönnum heims vera nokkuð undarlegt.
"Frank Lampard varð til dæmis í öðru sæti í kjöri knattspyrnumanns ársins, en Michael Ballack varð í fjórtánda sæti. Það er út í hött. Ballack skorar fleiri mörk en hann og ég held að hann njóti fyrst og fremst góðs af því að spila með Chelsea. Wayne Rooney er líka góður leikmaður, en við skulum ekki gleyma því að hann hefur enn ekki unnið neitt á knattspyrnuvellinum," sagði hinn skoðanaglaði Þjóðverji.