Enska úrvalsdeildarfélagið West Ham styrkti lið sitt til muna í dag þegar samningar náðust við 1. deildarlið Norwich City um kaup á sóknarmanninum Dean Ashton. Kaupverðið er engin skiptimynt eða 7.25 milljónir punda fyrir þennan 22 ára gamla leikmann. Ashton sem lék áður með U21 árs landsliði Englendinga skoraði 18 mörk í 46 leikjum fyrir Norwich eftir að hann fór þangað frá Crewe á 3 milljónir punda fyrir ári síðan.
Ashton mun gangast undir læknisskoðun hjá West Ham við fyrsta tækifæri en þar á bæ vonast menn til þess að hann verði orðinn löglegur með liðinu áður en það mætir Heiðari Helgusyni og félögum í Fulham í deildinni annað kvöld, mánudag.
Auk þess að borga tæpar 800 milljónir króna fyrir leikmanninn þá sömdu félögin um að Norwich fengi 15% andvirði þegar eða ef West Ham selur hann áfram.