Gary Neville, fyrirliði Manchester United, segir að hann hafi ekki farið yfir strikið í fögnuði sínum gegn Liverpool á sunnudaginn. Þegar Rio Ferdinand skoraði sigurmarkið hljóp Neville að áhangendum Liverpool og fagnaði óspart, stuðningsmönnum Liverpool til lítillar gleði. Sjálfur segir Neville að hann hafi ekki verið að gera lítið úr leikmönnum eða stuðningsmönnum Liverpool með athæfi sínu. ,,Ég varð algjörlega snælduvitlaus í um það bil 5 sekúndur og fagnaði ógurlega en ég sýndi enga lítilsvirðingu. Ef maður má ekki fagna almennilega þegar við skorum á seinustu mínútunni gegn erkifjendunum þá er eitthvað að. Það er nokkuð merkilegt ef að knattspyrnumenn verða alltaf að sýna af sér það mikla prúðmennsku og virðingu að þegar þeir ná markmiðum sínum megi þeir ekki fagna þeim" sagði Neville.
Sport