Sven-Göran Eriksson, landsliðsþjálfari Englendinga í knattspyrnu, segir að ágangur fjölmiðla í landinu hafi verið helsta ástæða þess að hann vildi hætta að þjálfa liðið eftir HM í sumar. Þetta sagði Eriksson á blaðamannafundinum sem hann hélt í dag.
"Álag hefur alltaf fylgt þessu starfi og það mun aukast enn á næstu mánuðum. Ég vil þó frekar vera í starfi þar sem er álag heldur en þar sem er ekkert álag, en ég hef þó fengið alveg nóg af því að lesa um einkalíf mitt í fjölmiðlum. Ég held að fólk sé líka alveg búið að fá nóg af því að lesa um mig og þó ég þykist vita að fólk vilji frekar lesa um knattspyrnu í blöðunum, er það því miður ekki þannig í þessu landi," sagði Eriksson, sem var búinn að fá sig fullsaddan af árásum í enskum fjölmiðlum.