LeBron James varð í nótt yngsti leikmaðurinn í sögu NBA til að vera kjörinn besti leikmaður Stjörnuleiksins þegar hann skoraði 29 stig og leiddi lið Austurstrandarinnar til sigurs gegn Vesturliðinu 122-120, eftir að Austurliðið hafði lent 21 stigi undir á tímabili í leiknum.
Tracy McGrady var atkvæðamestur í Vesturliðinu með 36 stig og spiluðu félagar hans ítrekað uppi, enda hefð fyrir því að leikmönnum "heimaliðsins" sé gert hátt undir höfði í leiknum. Það voru þó LeBron James og leikmenn Detroit Pistons sem lögðu grunninn að sigri Austurliðsins með góðum leik í fjórða leikhlutanum.
Tim Duncan skoraði 15 stig og hirti 10 fráköst hjá Vesturliðinu, Shawn Marion skoraði 14 stig og hirti 8 fráköst, Elton Brand skoraði 12 stig og hirti 7 fráköst og Kobe Bryant skoraði 8 stig, gaf 8 stoðsendingar og hirti 7 fráköst.
Hjá Austurliðinu var LeBron James stigahæstur með 29 stig og hirti 6 fráköst, Dwayne Wade skoraði 20 stig og hitti úr 9 af 11 skotum sínum, Shaquille O´Neal skoraði 17 stig og hirti 9 fráköst, Chauncey Billups skoraði 15 stig og gaf 7 stoðsendingar á aðeins 16 mínútum og Allen Iverson skoraði 12 stig.