Viðskipti innlent

Skógræktarfélagið ekki markaðshindrandi

Samkeppniseftirlitið hefur úrskurðað að þrátt fyrir að viss mismunum felist í starfi Skógræktarfélags Íslands þá sé það ekki markaðshindrun þegar nýir aðilar vilja starfa við grisjun sumarhúsalóða og skipulagsvinnu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Starfi félagið ekki á samkeppnismarkaði og vinni það eingöngu að grisjun eða ráðgjöf vegna skógarreita aðildarfélaga Skógræktarfélagsins.

Samkeppnisstofnun barst erindi frá Boga Franzsyni skógverkfræðingi vegna málsins í maí árið 2002. Taldi hann sig eiga litla möguleika á að skapa sér atvinnu vegna þess að landbúnaðarráðuneytið styrki Skógræktarfélag Íslands og missi hann viðskipti vegna þessa. Benti hann á í erindinu að til þess að hljóta styrk til skógræktar verði þeir aðilar sem sæki um styrkinn að ganga til samstarfs við landshlutabundin skógræktarverkefni. Geti hann ekki tekið að sér verkefni við landsbundin skógræktarverkefni þar sem lög kveði á um að þátttakendur í verkefnum eigi forgang til allra verka. Þá fái landseigendur nær allan kostnað greiddan úr skógræktarverkefnum og hvetji það þá til að ganga inn í verkefnin sem aftur leiði til þess að þeir eigi ekki viðskipti við Boga.

Er niðurstaða Samkeppniseftirlits sú að ekkert hafi komið fram sem bendi til að starfsemi Skógræktarfélags Íslands samrýmist ekki 14. grein samkeppnislaga eða öðrum ákvæðum þeirra þrátt fyrir þennan mismun. Sé því ekki tilefni til aðgerða á grundvelli samkeppnislaga vegna þeirra.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×