Innlent

Brotalöm á rannsókninni

Verjandi Jónasar Garðarssonar gagnrýndi rannsókn sjóslysins í Héraðsdómi í dag og sagði vafa í málinu það mikinn að ekki væri hægt að dæma Jónas. Saksóknari telur hins vegar óhyggjandi sannanir fyrir því að Jónas hafi stýrt skemmtibátnum Hörpu þegar hann steytti á Skarfaskeri en tvennt lést í slysinu.

Aðalmeðferð í máli Jónasar Garðarsson, formanns Sjómannafélags Reykjavíkur, lauk nú undir kvöldið. Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari í málinu, sagði fullvíst að Jónas hafi verið við stýrið á bátnum þegar hann steytti á Skarfaskeri. Jónas bæri ábyrgð á ferðinni frá upphafi til enda. Hann sé bæði skipstjóri og eigandi bátsins og hafi áratuga reynslu af því að sigla.

Saksóknari sagði framburð Jónasar afar ótrúverðugan og áverka og ummerki sýna annað. Framburð sonar Jónasar, þar sem hann staðsetti alla sem um borð voru eftir slysið, sagði saksóknari sýna að Matthildur gat ekki verið við stýrið. Jónas hafi gerst brotlegur þegar hann reyndi ekki að gera ráðstafanir til að koma þeim beint í land heldur að gera tilraun til þess að sigla inn í Snarfarahöfn. Hann hafi líka neitað að tala við Neyðarlínuna til að byrja með. Sigríður sagði Jónas hafa beitt meðvituðu gáleysi þar sem hann var ölvaður og gerði ekki það sem þurfti til að bjarga fólkinu. Krafist er 3 ára fangelsisvistar yfir Jónasi. Bótakröfur fjölskyldna þeirra tveggja sem létust í slysinu nema hátt í tuttugu milljónir króna.

Eftir að saksóknari og lögfræðingar fjölskyldna þeirra látnu höfðu lokið máli sínu tók Kristján Stefánsson, verjandi Jónasar, við. Hann sagði skynsamlegan vafa í málinu það mikinn að ekki væri hægt að sakfella Jónas. Gagnrýnivert væri að ekki hefðu farið fram sjópróf líkt eins og krafist væri í siglingalögum. Gallar á rannsókninni væri líka margir og mjög óeðlilegt væri að meinafræðingur og sá sem stýrði vettvangsrannsókn lögreglu hefðu unnið saman með þeim hætti sem þeir gerðu. Þeirra rannsóknir ættu að vera að fullu aðskildar en starfsaðferðir þeirra hefðu ekki samræmst lögum. Jónas hefði líka átt að hafa talsmann við rannsóknina sem hann hafði ekki.

Verjandinn sagði áverka Jónasar sýna að hann hafi ekki getað verið við stýrið þegar slysið varð. Ekki væri rétt að Jónas hafi stefnt bátnum inn í Snarfarahöfn heldur hafi hann ætlað inn í vík rétt hjá skerinu sem bátnum steytti á. Að þessu öllu samanlögðu væri ljóst að ákæruvaldið hefði ekki staðið sig og sýkna ætti Jónas.

Niðurstöðu í málinu er að vænta innan þriggja vikna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×