Sport

Larry Brown rekinn frá New York?

Draumur Larry Brown gæti verið að breytast endanlega í martröð
Draumur Larry Brown gæti verið að breytast endanlega í martröð NordicPhotos/GettyImages

Heimildarmaður dagblaðsins New York Daily News greindi frá því um helgina að stjórnarformaður New York Knicks væri alvarlega að hugsa um að kaupa upp samning þjálfarans Larry Brown og láta hann fara frá félaginu.

Árangur New York á liðnum vetri var vægast sagt skelfilegur og þar að auki hefur samstarf Brown og leikmanna liðsins verið stormasamt. Stjórnarformaðurinn James Dolan er sagður vera búinn að fá upp í kok af sérvisku Brown og endalausri gagnrýni hans á leikmenn liðsins í fjölmiðlum.

Ef svo færi að Brown yrði látinn fara, yrði það ekki fallegur endir á löngum og glæstum ferli hans sem þjálfari, en hann fór aldrei leynt með það að það væri draumastarfið hans að stýra liðinu í heimaborg sinni New York. Sá draumur hefur hinsvegar breyst í martröð og hefur Brown meðal annars verið mjög heilsutæpur.

Fregnir herma að ef Brown yrði látinn fara, kæmi það í hlut forseta félagsins Isiah Thomas að taka við þjálfun liðsins - og yrði sá leikur ekki síst til að spara peninga, því talið er að Dolan þurfi að punga út hátt í 40 milljónum dollara til að losna við Larry Brown.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×