Viðskipti innlent

Spá minni vöruskiptahalla

Glitnir.
Glitnir.

Greiningardeild Glitnis segir útlit fyrir að innflutningur hafi dregist verulega saman í ágúst og útflutningur aukist nokkuð frá fyrri mánuði. Megi því búast við því að vöruskiptahalli hafi dregist töluvert saman milli mánaða.

Deildin hefur eftir nýbirtum bráðabirgðatölum frá Hagstofu að verðmæti vöruútflutnings í ágúst hafi numið 16,6 milljörðum króna en innflutningur á vörum hafi numið 28,3 milljörðum króna. Verði hallinn því tæpir 12 milljarðar króna í ágúst. Það er þriðjungi minni halli en í júlí en þá mældist methalli í vöruskiptum.

Greiningardeildin segir aðstæður hafa verið um margt sérstakar í júlí hvað útflutning varðar og því ekki að furða að brugðið hafi til betri vegar í síðasta mánuði. Álframleiðsla hafi verið að færast í fyrra horf eftir óhapp í Straumsvík sem olli verulega skertri framleiðslugetu í júlímánuði en við bætist að útflutningur frá álverinu á Grundartanga hafi aukist jafnt og þétt eftir að stækkað ver var tekið í gagnið. Þá bendi ýmislegt til þess að birgðastaða sjávarafurða hafi verið með mesta móti í lok júlímánaðar.

Viðsnúningurinn á sér helst rætur í minni innflutningi. Dróst hann saman á milli mánaða um 16 prósent á föstu gengi á meðan verðmæti útflutnings jókst um 7,5 prósent sé það mælt með sama hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×