Viðskipti innlent

KfW gefur út 9 milljarða krónubréf

Þýski þróunarsjóðurinn KfW tilkynnti í dag um útgáfu á krónubréfum í þremur hlutum fyrir samtals 9 milljarða króna. Hver útgáfa er 3 milljarðar króna og er gjalddögunum dreift í október á árunum 2008, 2009 og 2010. Heildarútgáfa áKfW nemur 87 milljörðum króna en til samanburðar eru allir ríkisbréfaflokkarnir tæpir 86 milljarðar króna að markaðsvirði.

Greiningardeild Glitnis segir alls hafa nú verið gefin út krónubréf fyrir tæpa 310 milljarða króna en útistandandi eru tæplega 270 milljarðar króna. Aukinn kraftur í útgáfu krónubréfa á síðustu vikum hafi haft veruleg áhrif á gengi krónunnar sem hefur hækkað um 3,5 prósent síðasta mánuðinn, að sögn deildarinnar.

Þá segir ennfremur að áhugavert verði að sjá hvað gerist á gjaldeyrismarkaði þegar draga muni úr áhuga erlendra fjárfesta á frekari útgáfu. Þetta gæti vel átt sér stað með lækkun stýrivaxta á næsta ári og jafnvel fyrr. Dragi hratt úr útgáfu krónubréfa að nýju gæti fylgt því snörp lækkun gengis krónunnar þar sem ljóst sé að útgáfan hafi stutt verulega við gengi hennar undanfarnar vikur, að sögn greiningardeildar Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×