Erlent

Nýsjálendingar segja ákvörðun Íslendinga aumkunarverða

Tortryggni og undrun eru leiðarstef í umfjöllun erlendra fjölmiðla um ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar að heimila atvinnuhvalveiðar. Einna hörðust hafa viðbrögðin verið í Nýja-Sjálandi en þarlend stjórnvöld segja ákvörðunina aumkunarverða.

Óhætt er að segja að fréttirnar um ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar um að heimila hvalveiðar í atvinnuskyni á nýjan leik hafi borist um heiminn eins og eldur í sinu.

Það má meðal annars merkja af vefgáttinni Google News sem leitar í öllum fréttamiðlum sem skrifaðir eru á ensku. Nú undir hádegi höfðu ríflega 250 blaðagreinar birst um málið um allan heim. Þá eru ekki taldar með þær greinar sem ritaðar eru á öðrum tungumálum.

Breska ríkisútvarpið var einna fyrst til að fjalla um málið, þar var afstaða íslenskra stjórnvalda skýrð en jafnframt bent á að markaðir væru af skornum skammti. Breska blaðið Independent, sem er þekkt fyrir áherslu á umhverfisvernd, bendir á að fæstir Íslendingar borði hvalkjöt og á vefsíðu Grænfriðunga í landinu er staðhæft að ákvörðunin sé efnahagslegt feigðarflan. Þýska blaðið Die Welt hnykkir á að Íslendingar séu að ganga gegn banni alþjóðahvalveiðiráðsins og í Washington Post er tekið í svipaðan streng.

Hörðustu viðbrögðin koma hins vegar frá Nýja-Sjálandi. Þarlend stjórnvöld segja ákvörðun íslensku stjórnarinnar aumkunaverða og segja að þeim skilaboðum verði komið rækilega á framfæri. Alger einangrun Íslendinga á alþjóðavettvangi virðist þó ekki raunin. Jákvæður tónn er í grein danska blaðsins Politiken um málið og norska blaðið Fiskaren fagnar ákvörðuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×