Innlent

Hafnaði kröfu ríkisins um að flugskýli yrði flutt af Akureyrarflugvelli

Frá Akureyrarflugvelli.
Frá Akureyrarflugvelli. MYND/KK

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu íslenska ríkisins um að eigandi flugskýlis á lóð Akureyrarflugvallar yrði borinn af lóðinni. Manninum var tilkynnt með bréfi fyrir um ári að honum hefði verið sagt upp lóðarréttindum og þess farið á leit við hann að hann flytti flugskýlið, sem oft hefur verið nefnt skýli Svifflugfélagsins, af lóð Akureyrarflugvallar fyrir fyrsta maí á þessu ári.

Þegar maðurinn varð ekki við beiðni ríkisins fór ríkið fram á það við dómstóla að maðurinn yrði borinn burt með hús sitt. Skýlið var byggt árið 1958 og byggði maðurinn málsvörn sína á því að hefð hefði unnist á lóðinni þar sem hann og forverar hans hefðu haft lóðina í sinni umsjá án athugasemda í 47 ár eða meira en tvöfaldan hefðartíma. Á það féllst héraðsdómur og hafnaði því kröfu íslenska ríkisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×