Fótbolti

Juninho gagnrýnir brasilíska landsliðið

Juninho
Juninho NordicPhotos/GettyImages

Juninho, leikmaður Lyon í Frakklandi og fyrrum landsliðsmaður Brasilíu, gagnrýnir harðlega undirbúning Brassa fyrir HM í Þýskalandi í sumar og segir að liðið hafi farið á mótið með hangandi hendi. Hann segist þó ánægður með störf nýja landsliðsþjálfarans Dunga það sem af er.

Juninho var í landsliði Brasilíu sem olli nokkrum vonbrigðum á HM og féll úr keppni gegn Frökkum í fjórðungsúrslitunum. Hann lagði landsliðsskóna á hilluna eftir HM.

"Ég vona að Dunga haldi áfram að gefa ungum og hungruðum mönnum tækifæri með landsliðinu líkt og hann hefur gert í æfingaleikjum hingað til, því það er liðin tíð að mínu mati að menn séu í þessu liði bara af því þeir eru þekkt nöfn. Við vorum alls ekki nógu vel undirbúnir fyrir HM í sumar og við spiluðum æfingaleiki við léleg lið við slæmar aðstæður. Það er svosem í lagi ef menn ætla ekki að spila marga æfingaleiki fyrir stórmót - en menn verða þá að leggja sig þeim mun meira fram á æfingum og það var ekki gert.

Menn sem höfðu spilað með hangandi hendi fengu samt að spila áfram á HM í sumar og ég held að menn hafi verið komnir með hugann við úrslitaleikinn fyrir leikinn gegn Frökkum. Þeir voru svo einfaldlega klárari í leikinn andlega og líkamlega heldur en við og því fór sem fór," sagði Juninho í samtali við franska fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×