Nú er kominn hálfleikur í frábærum leik Manchester United og Benfica á Old Trafford í Meistaradeildinni og er staðan jöfn 1-1. Gestirnir frá Portúgal komust yfir þvert gegn gangi leiksins þegar bakvörðurinn Nélson skoraði með glæsilegu skoti eftir 27 mínútur, en Nemanja Vidic jafnaði fyrir heimamenn í uppbótartíma. Leikurinn hefur verið eign Manchester United síðasta hálftímann og sóknarleikurinn í fyrirrúmi.
Dynamo Kiev hefur yfir 2-0 gegn Real Madrid, jafnt er 1-1 hjá Lyon og Steua í E-riðli, en þessir leikir skipta litlu máli um áframhaldið.
Í F-riðli eru athyglisverðir hlutir að gerast, því auk viðureignar United og Benfica á Sýn er Kaupmannahöfn að vinna Celtic 2-0.
Í G-riðli er markalaust hjá Porto og Arsenal og staðan í leik Hamburg og CSKA Moskva er 1-1.
Í H-riðli er svo Anderlecht að vinna AEK 1-0 og Lille hefur yfir gegn Milan á útivelli 1-0, en þar hefur Milan þegar tryggt sér sigur í riðlinum.