Skoðun

Hvernig á að borga fyrir heilbrigðisþjónustuna?

Ögmundur Jónasson skrifar
Á Íslandi er víðtæk sátt um að hafa góða heilbrigðisþjónustu. Stjórnmálamenn greinir hins vegar á um hvernig eigi að greiða fyrir hana. Sumir vilja láta borga með almennum sköttum, aðrir vilja að notandinn borgi beint og milliliðalaust. Hvað heilbrigðisþjónustuna áhrærir myndu milliliðalausar greiðslur þýða að við greiddum læknum og heilbrigðisstofnunum þegar við verðum veik.

Þetta hefur verið að færast í vöxt hér á landi. Að vísu er til millileið. Fólk gæti keypt sér tryggingu fyrir sjúkdómum og áföllum. Einnig þetta er að færast í vöxt. Sá galli er á slíku kerfi að tryggingafyrirtækin mismuna viðskiptavinum sínum á þann veg að einstaklingum sem líklegir eru til að veikjast (til dæmis vegna erfða) er seld trygging hærra verði en hinum sem eru heilsuhraustir og líklegir til að halda heilsu. Einstaklingsbundið tryggingakerfi mismunar þannig fólki. Sá sem hætt er við að þurfi á umönnun og lækningu að halda stendur lakar að vígi en hinn hrausti! Spurningin verður þá siðferðileg. Viljum við kerfi sem mismunar fólki? Þessari spurningu þurfa stjórnmálamenn að svara.

Fyrir okkar leyti höfum við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði svarað henni. Við viljum samtryggingarkerfi sem ekki mismunar. Og hvað varðar greiðslumátann þá viljum við láta greiða fyrir heilbrigðiskerfið með sköttum en ekki komugjöldum og öðrum sjúklingasköttum. Með öðrum orðum, við viljum borga á meðan við erum heilbrigð og vinnufær í stað þess að bíða þangað til við erum orðin veik og ef til vill óvinnufær.

Nýleg könnun á vegum Háskóla Íslands, Landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar bendir til að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé sama sinnis. En hvað vilja aðrir stjórnmálaflokkar? Kjósendur eiga heimtingu á að þeir svari þessari spurningu skýrt.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Sjá meira


×