Viðskipti innlent

Fimm félög á yfir þrjú hundruð milljarða

Eggert Þór Aðalsteinsson

skrifar



Í fyrsta skipti eru fimm fyrirtæki í Kauphöll Íslands metin á þrjú hundruð milljarða króna eða meira. Fyrirtækin eru fjármálafyrirtækin Kaupþing, Glitnir, Landsbankinn og Exista og samheitalyfjafyrirtækið Actavis sem datt inn í þennan hóp eftir að Novator hækkaði yfirtökutilboð sitt í félagið. Átta stærstu félögin í Kauphöllinni eru alls metin á tæpa þrjú þúsund milljarða króna.



Athygli vekur að mikil aukning markaðsvirðis á árinu er fremur að þakka miklum gengishækkunum en aukningu hlutafjár. Úrvalsvísitalan stendur nú í methæðum í tæpum 8.300 stigum, sem er ríflega 29 prósenta hækkun frá áramótum, en fjármálafyrirtæki hafa dregið vagninn á árinu.

Markaðsvirði þriggja félaga hefur aukist um 100 milljarða króna frá áramótum. Þetta eru Kaupþing, Exista og Landsbankinn. Glitnir bankar svo á dyrnar. Frá áramótum hefur markaðsvirði viðskiptabankanna aukist um þriðjung; 431 milljarð króna sem er um þriðjungur af vergri landsframleiðslu Íslands. Aukingin er enn þá meiri ef litið er rúmt eitt ár aftur í tímann, um 730 milljarðar króna.



Kaupþing, sem var eina fyrirtækið sem komst yfir 300 milljarða króna múrinn fyrir ári síðan, er langverðmætasta fyrirtækið í Kauphöllinni. Markaðsvirði bankans stóð í 825 milljörðum í byrjun vikunnar. Glitnir og Landsbankinn fylgja þar í humátt á eftir í sætum tvö og þrjú en bankarnir eru komnir vel yfir 400 milljarða króna. Landsbankinn hefur hækkað gríðarlega frá áramótum, eða um 44 prósent, en Glitnir þó minna. Hluti af verðmætaaukningu Glitnis er kominn til vegna aukningar hlutafjár. Ekkert þessara félaga hefur hækkað meira en Exista. Gengi félagsins hefur rokið upp um fimmtíu prósent á árinu. Félagið jók einnig hlutafé sitt eftir kaupin á yfir fimmtán prósenta hlut í Sampo Group í Finnlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×