Íslenski boltinn

Þrjú töp hjá FH í Dalnum á síðustu fjórum árum

Arnór Aðalsteinsson Bliki og FH-ingurinn Matthías Guðmundsson verða í eldlínunni í dag.
Arnór Aðalsteinsson Bliki og FH-ingurinn Matthías Guðmundsson verða í eldlínunni í dag. Anton

Íslandsmeistarar FH-inga, sem eru með sex stiga forskot á toppi Landsbankadeildar karla, eru enn á ný mættir í bikarleik á Laugardalsvelli þar sem þeir hafa dottið út úr bikarnum þrisvar sinnum á síðustu fjórum árum. FH mætir Breiðabliki í fyrri undanúrslitaleik VISA-bikars karla og hefst leikurinn klukkan 16.00.

FH-ingar hafa þegar unnið einn bikarleik í Laugardalnum í sumar þegar þeir slógu Valsmenn út úr átta liða úrslitunum með marki Ásgeirs Gunnars Ásgeirssonar í uppbótartíma. Þeir töpuðu hinsvegar bikarleikjum í Laugardalnum 2005 (undanúrslit gegn Fram, 6-7 í vítakeppni), 2004 (undanúrslit gegn KA, 0-1) og 2003 (úrslitaleikur gegn ÍA, 0-1).

FH hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn þrjú ár í röð en FH hefur aldrei unnið bikarinn þrátt fyrir að eiga að baki þrjá bikarúrslitaleiki. FH tapaði bikarúrslitaleiknum 1972 fyrir ÍBV 0-2, 1991 töpuðu þeir 0-1 í aukaleik á móti val eftir 1-1 jafntefli í fyrri leiknum og 2003 töpuðu þeir 0-1 fyrir ÍA. FH spilar í dag sinn tólfta undanúrslitaleik í bikarkeppninni en Hafnfirðingar hafa tapað 8 af 11 leikjum þar af fjórum þeirra á síðustu sjö árum.

Breiðablik á allt annað en góðar minningar úr undanúrslitum bikarsins því eftir eina sigurinn fyrir 36 árum (1971 gegn Fram, 1-0) þá hafa Blikar tapað sex undanúrslitaleikjum í röð síðast 0-3 gegn KR árið 1999.



Síðustu ár hjá FH-ingum í bikarnum

2007 Undanúrslit

Mæta Breiðabliki á Laugardalsvelli

2006 16 liða úrslit

1-2 fyrir Víkingi í Kaplakrika

2005 Undanúrslit

Tap fyrir Fram í vítakepppni á Laugardalsvelli

2004 Undanúrslit

0-1 tap fyrir KA á Laugardalsvelli

2003 Úrslitaleikur

0-1 tap fyrir ÍA á Laugardalsvelli

2002 16 liða úrslit

1-4 tap fyrir Fylki í Árbænum

2001 Undanúrslit

0-3 tap fyrir KA í Kaplakrika




Fleiri fréttir

Sjá meira


×