Viðskipti innlent

Minna tap hjá Atlantic Petroleum

Færeyska olíuleitarfélagið Atlantic Petroleum skilaði tapi upp á rúma 8,1 milljón danskra króna, jafnvirði rétt rúmra 96 milljóna íslenskra króna, á síðasta ári. Þetta er nokkru minna tap en árið áður en þá tapaði félagið tæplega 10,4 milljónum danskra króna, sem jafngildir 123,3 milljónum íslenskra króna.

Í uppgjöri félagsins kemur fram að rekstrartap Atlantic Petroleum á árinu hafi numið tæpum 11,5 milljónum danskra króna, tæplega 136,37 milljónum íslenskra króna, samanborið við tap upp á 11,8 milljónir danskra króna, 139,9 milljónir íslenskra króna, árið á undan.

Rekstrartapið var nokkru meira en spáð var en gert hafði verið ráð fyrir tapi upp á 10 milljónir danskra króna, 118,6 milljónir íslenskra króna, á árinu.

Tap félagsins á fjórða ársfjórðungi í fyrra minnkaði talsvert á milli ára. Tapið nam tæplega 1,5 milljónum danskra króna, tæpum 17,8 milljónum íslenskra króna, samanborið við tap upp á rétt rúmlega 7,3 milljónir danskra króna, 86,5 milljónir íslenskra króna, árið 2005.

Í uppgjörinu segir að olíuleit á Chestnut og Ettrick-svæðunum hefjist á seinni helmingi þessa árs og fyrri helmingi næsta árs. Er gert ráð fyrir ívið hærri kostnaði við framkvæmdina á Chestnut-svæðinu en fyrri áætlanir hljóðuðu upp á. Gert var ráð fyrir að kostnaði upp á 45 milljónir danskra króna, jafnvirði rúmlega 533 milljóna íslenskra króna. Nú er hins vegar búist við að kostnaðurinn verði allt að 58 milljónir króna, 687,7 milljónir íslenskra króna.

Uppgjör Atlantic Petroleum






Fleiri fréttir

Sjá meira


×