Viðskipti innlent

Kaupþing spáir 5,3 prósenta verðbólgu

Kaupþing.
Kaupþing. Mynd/Stefán

Greiningardeild Kaupþings spáir því að vísitala neysluverð hækki um 0,6 prósent í apríl. Gangi það eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 5,3 prósent í mánuðinum. Til samanburðar mældist 5,9 prósenta verðbólga í þessum mánuði.

Í verðbólguspá greiningardeildar Kaupþings segir að hærra fasteignaverð ásamt verðhækkunum á fatnaði og eldsneyti leiði hækkunina nú. Á móti sé gert ráð fyrir lækkun á verðskrám hótel- og veitingastaða.

Þá er meðal annars gert ráð fyrir því að hærra eldsneytisverð muni leiða til um 0,09 prósenta hækkunar á vísitölu neysluverðs á milli mánaða.

Deildin bendir á að verð á þjónustu hótel- og veitingastaða lækkaði um 3,2 prósent á milli mánaða í kjölfar skattalækkana en hefði átt að lækka um rúm 8 prósent samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands. Á einhver lækkun eftir að skila sér til viðbótar, að mati greiningardeildar Kaupþings.

Deildin telur að tólf mánaða verðbólga haldi áfram að lækka fram á sumar en telur óvíst að verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð. Spáir hún því að verðbólga láti á sér kræla á ný undir lok árs og muni tólf mánaða verðbólga þá hækka aftur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×