Viðskipti innlent

Seðlabankinn heldur stýrivöxtum óbreyttum

Seðlabankinn.
Seðlabankinn. Mynd/Heiða

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 14,25 prósentum. Þetta er í takt við spár greiningardeilda viðskiptabankanna þriggja og erlendra greinenda.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína síðast um fjórðung úr prósenti á aukavaxtaákvörðunardegi 21. desember síðastliðinn. Á síðasta vaxtakvörðunardegi í byrjun febrúar var hins vegar ákveðið að halda vöxtunum óbreyttum.

Greiningardeildir viðskiptabankanna sögðu í gær líkur á því að harður tónn verði sleginn í rökstuðningi Seðlabankans fyrir vaxtaákvörðuninni enda séu enn vísbendingar um þenslu í efnahagslífinu og launaskrið auk þess sem fátt bendi til að draga ætli úr einkaneyslu.

Deildirnar eru allar sammála um að bankinn muni lækka stýrivextina á næstu mánuðum. Hvenær það verður er ekki ljóst. Þannig segir Landsbankinn að búast megi við lækkun stýrivaxta á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans 5. júlí næstkomandi.

Greiningardeild Glitnis telur hins vegar líkur á lækkun strax 17. maí næstkomandi og geti vextir verið komnir niður í 11,5 prósent við árslok. Deildin segir nokkra óvissuþætti þó spila inni. Þar á meðal er kosningin um stækkun álversins í Straumsvík. Greiningardeildin bendir á það í Morgunkorni sínu í gær að verði samþykkt að stækka álverið þá aukist líkurnar að stýrivextir haldist háir næstu misserin.

Peningamál, ársþriðjungsrit Seðlabankans um efnahagsmál, kemur út samhliða vaxtaákvörðuninni í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×