Skoska knattspyrnugoðsögnin Andy Gray hjá Sky-sjónvarpsstöðinni kemur til Íslands á morgun til að vera viðstaddur sérstakan blaðamannafund sem haldinn verður á miðvikudaginn. Á fundinum verður sjónvarpsstöðin Sýn 2 formlega kynnt til leiks en hún mun gera enska boltanum góð skil á íslandi frá og með upphafi næstu leiktíðar.
Fundurinn verður haldinn í veislusal KSÍ í Laugardalnum og verður opinn blaðamönnum. Andy Gray mun þar taka til máls og m.a. verður rætt um komandi leiktíð í ensku úrvalsdeildinni. Þá verður dagskrá nýju sjónvarpsstöðvarinnar kynnt, en þar verður einnig sýnt frá Championship-deildinni og Coca-Cola Championship, en auk þess verða kynntir fleiri skemmtilegir dagskrárliðir sem verða á stöðinni.