Íslenski boltinn

Kristján Ómar: Höfum ekki tapað á Fjölnisvelli á þessari öld

Aron Örn Þórarinsson skrifar
Kristján Ómar Björnsson, miðjumaður Hauka.
Kristján Ómar Björnsson, miðjumaður Hauka. Mynd/Haukar.is

Haukar heimsækja Fjölni í kvöld í átta liða úrslitum bikarkeppnarinnar á Fjölnisvelli. Kristján Ómar Björnsson, miðjumaður Hauka segir í samtali við Vísi.is að Haukar hafi ekki tapað á Fjölnisvelli á þesari öld og stefnan sé að halda þeirri hefð.

Haukar komu á óvart í 16-liða úrslitum keppnarinnar þegar þeir lögðu úrvalsdeildarlið Fram í vítaspyrnukeppni á Ásvöllum en áður höfðu Haukar slegið út Skallagrím og Víking Ó. Kristján segir að allir leikmenn Hauka séu leikfærir fyrir utan Hilmar Rafn Emilsson, en hann er markahæstur í liði Hauka, þrátt fyrir að hafa aðeins leikið sjö leiki af þrettán í deildinni.

„Við erum mjög sterkir varnarlega og beittir fram á við. Fjölnismenn eru einnig með gott sóknarlið. Ég vonast bara eftir skemmtilegum leik og nóg af mörkum. Við höfum ekki tapað á Fjölnisvelli á þessari öld og vonandi breytist það ekki í kvöld," sagði Kristján. „Við erum með mikinn reynslubolta úr bikarkeppninni en Þórhallur Dan hefur tekið þátt í þremur bikarúrslitaleikjum á sínum ferli."

Haukar eru efstir í 2. deildinni með 29 stig eftir 13 leiki, en Fjölnir eru í þriðja sæti 1. deildar með 30 stig eftir 15 leiki.

Leikurinn hefst klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×