Erlent

Áhugastjörnufræðingur í ljósmyndasamkeppni við NASA

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Barcroft Media

Breskur áhugastjörnufræðingur náði myndum úr bakgarðinum heima hjá sér sem gefa myndum NASA ekkert eftir í gæðum.

Margir húsbændur á sextugsaldri dunda sér við annað í garðinum sínum en að mæna á stjörnurnar. Greg Parker í New Forest á Suður-Englandi er ekki einn af þeim. Í stað þess að kantskera, slá og vökva hefur Parker komið sér upp stjörnurannsóknarstöð í bakgarðinum með öflugum sjónauka og öllu tilheyrandi.

Gegnum þennan sjónauka hefur honum svo ofan á allt saman auðnast að ná myndum af stjörnuþyrpingu í 12 milljarða ljósára fjarlægð sem þykja svo skýrar að þær hafa verið birtar í nýrri bók stjörnuljósmyndasérfræðingsins Noels Carboni í Flórída.

Sjálfur er Parker prófessor í verkfræði og hefur lengi haft stjörnuskoðun og -rannsóknir sem áhugamál. Myndir Parkers þykja jafnast fullkomlega á við sumar þeirra mynda sem bandaríska geimferðastofnunin NASA hefur náð gegnum sína sjónauka en hann beitir hárnákvæmum aðferðum sem felast í því að taka myndirnar á löngum tíma svo ljósið frá stjörnunum nái að stimpla sig inn á filmuna.

Til þess kælir hann myndavélina niður en hún er sérútbúin til stjörnuljósmyndunar. Parker var til dæmis meira en 40 klukkustundir að mynda vetrarbrautina Andrómedu en hún er „ekki nema" í 2,2 milljóna ljósára fjarlægð og það kallar Parker nú bara dagsferð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×