Körfubolti

Mannlega mælistikan Vranes

Slavko Vranes gnæfði yfir hinn 2 metra háa Friðrik Stefánsson
Slavko Vranes gnæfði yfir hinn 2 metra háa Friðrik Stefánsson Mynd/Vísir

Miðherjinn Slavko Vranes vakti mikla athygli í Laugardalshöllinni gær þegar Svartfellingar lögðu Íslendinga 80-66 í Evrópukeppninni í körfubolta.

Vranes spilaði reyndar ekki nema tvær mínútur og skilaði tveimur stigum í leiknum, en hæð kappans var umræðuefni margra í höllinni.

Hann er 230 cm á hæð og gnæfði yfir íslensku leikmennina eins og sjá má á mynd með fréttinni.

Telja má nokkuð víst að Vranjes sé hávaxnasti körfuboltamaður sem spilað hefur á Íslandi.

Framlag Vranes til leiksins var ekki stórkostlegt, en hann gegndi áhugaverðu hlutverki þegar Svartfellingar mættu í Laugardalshöllina eftir því sem starfsmaður í Höllinni tjáði Vísi.

"Mér fannst Svartfellingarnir nokkuð þurrir á manninn og það fyrsta sem þeir vildu láta athuga þegar þeir komu í Höllina var hvort körfurnar væru í réttri hæð. Þeir notuðu Vranes sem mælistiku og hann þurfti ekki einu sinni að lyfta sér á tærnar til að grípa um körfuhringinn," sagði starfsmaðurinn.

"Hún er of lág," á risinn að hafa sagt - og við nánari athugun kom í ljós að hringurinn var 3 cm lægri en lög gerðu ráð fyrir. Þess má geta að lögleg hæð á körfuhring er 305 cm frá gólfi.

Svartfellingar mættu til Íslands með gríðarlegt föruneyti og talið var að þarna hefðu verið á ferðinni í kring um 50 manns, eða talsvert fleiri en gengur og gerist.

Einn þeirra, eldri maður, hélt upp á sigurinn á íslenska liðinu með því að kveikja sér í digrum vindli fyrir utan búningsherbergið eftir leikinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×