Körfubolti

Keflavík og Grindavík í undanúrslit

TaKesha Watson og félagar í Keflavík hefndu ófaranna gegn Val.
TaKesha Watson og félagar í Keflavík hefndu ófaranna gegn Val. Mynd/E. Stefán

Fjórðungsúrslit Lýsingabikarkeppni kvenna hófust í dag með tveimur leikjum. Keflavík og Grindavík tryggðu sér sæti í undanúrslitum.

Grindavík vann KR á heimavelli með þrettán stiga mun, 93-80.

Þá vann Keflavík góðan sigur á Val, 71-61. Þessi lið mættust í deildinni á dögunum og þá vann Valur óvæntan sigur.

En Keflvíkingar ætluðu ekki að láta það henda aftur og byrjuðu leikinn með því að ná þrettán stiga forystu, 17-4.

Valsmenn svöruðu um hæl með því að skora næstu ellefu stigin í leiknum og var staðan að loknum fyrsta leikhluta 17-15. Staðan í hálfleik var 37-31 og svo fór að Keflvíkingar unnu á tíu stiga sigur, 71-61.

Signý Hermannsdóttir var stigahæst hjá Val með nítján stig en hún tók þar að auki þrettán fráköst og varði sex skot. Molly Peterman var með sautján stig.

Hjá Keflavík var TaKesha Watson með 24 stig en hún stal sjö boltum og gaf sex stoðsendingar.

Margrét Kara Sturludóttir kom næst með fjórtán stig, sextán fráköst og sex varin skot. Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði fjórtán stig.

Fjórðungsúrslitunum lýkur á morgun með leikjum Hauka og Hamars annars vegar og Snæfells og Fjölnis hins vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×