Erlent

Þjónar brátt liðin tíð á veitingastöðum

Fyrirtækið Conceptic telur hvatakaup bestu kaupin.
Fyrirtækið Conceptic telur hvatakaup bestu kaupin.

TEL AVIV (Reuters) Veitingastaðir í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan gera nú tilraunir með nýja tækni sem gerir gestum kleift að panta mat og drykk með aðstoð skjás sem komið er fyrir á borðinu hjá þeim. Aðferðin hefur hlotið heitið „bytes-for-bites" upp á engilsaxnesku en orðaleikurinn vísar til tölvuminniseiningarinnar bætis á móts við matarbita og binda forsvarsmenn hennar vonir við að auk þess að lækka rekstrarkostnað veitingastaðanna höfði þessi nýjung mjög til hinna yngri neytenda og virki einnig söluhvetjandi þar sem tæknin bjóði upp á girnilegar myndir af réttunum.

Fyrirtækið Conceptic selur þessa tækni í Ísrael og þar í landi verða tölvuskjáir æ algengari sjón á borðum veitingastaða hvort sem þeir bjóða upp á sushi, hefðbundna ísraelska rétti eða hreinlega bara áfengi. „Þetta snýst um hvatakaup," segir Adi Chitayat, framkvæmdastjóri Conceptic, „það eru stórauknar líkur á að viðskiptavinur kaupi súkkulaðiköku ef mynd af henni blasir við honum."

Hjá einum veitingastað í Tel Aviv hefur salan aukist um 11% síðan skjáirnir birtust á borðum þar og ekki stendur á jákvæðum viðbrögðum frá gestum: „Þetta er mun myndrænna svona, við getum enn valið og við getum enn rifist um hvað við ætlum að velja en nú getum við horft á það um leið," sagði glaðbeittur fjölskyldufaðir í Tel Aviv.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×