Körfubolti

Strákarnir unnu Finna með 21 stigi - sá stærsti á Finnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir sjást hér fagna sigri á mótinu.
Strákarnir sjást hér fagna sigri á mótinu. Mynd/Stefán Borgþórsson

Íslenska 18 ára landsliðið í körfubolta vann 21 stigs sigur á Finnum, 70-49, á Norðurlandamótinu í Solna í dag og hefur því unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum á mótinu.

Þetta er stærsti sigur 18 ára landsliðs karla á Finnum á Norðurlandamóti frá upphafi en gamla metið er síðan að 1985-landsliðið vann 17 stiga sigur á Finnum, 97-80, 21. maí 2004.

Haukamaðurinn Haukur Óskarsson skoraði 20 stig fyrir íslenska liðið, fyrirliðinn Ægir Þór Steinarsson var með 15 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar og þá var Haukur Helgi Pálsson með 12 stig og 15 fráköst. Borgnesingurinn Sigurður Þórarinsson skoraði 10 stig.

Haukur skoraði 6 þriggja stiga körfur í leiknum úr 11 tilraunum en alls skoraði íslenska liðið tíu þrista í þessum leik.

Íslenska liðið hafði áður unnu Dani 69-60 og tapað naumlega fyrir heimamönnum í Svíþjóð 82-86.

Þjálfari 18 ára liðsins er Ingi Þór Steinþórsson en þeir tryggja sér sæti í úrslitaleik mótsins vinni þeir Norðmenn á morgun.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×