Fótbolti

Hoffenheim fékk annan skell gegn Leverkusen

Leikmenn Leverkusen væru eflaust til í að mæta Hoffenheim oftar
Leikmenn Leverkusen væru eflaust til í að mæta Hoffenheim oftar NordicPhotos/GettyImages

Öskubuskulið Hoffenheim hefur farið mikinn í þýsku úrvalsdeildinni í vetur, en í kvöld steinlá liðið 4-1 heima fyrir Leverkusen. Þetta var í annað sinn á leiktíðinni sem Leverkusen tekur nýliðana í kennslustund.

Hoffenheim hefur eflaust óskað þess að hefna fyrir 5-2 tap sitt í fyrri viðureign liðanna í ágúst þegar flautað var til leiks á nýja Rhein-Neckar Stadion, en eins og í fyrri leiknum voru það Leverkusen-menn sem réðu ferðinni.

Patrick Helmes kom gestunum yfir eftir aðeins þrjár mínútur og bætti Leverkusen við tveimur mörkum til viðbótar fyrir hlé.

Vonir heimamanna vöknuðu tímabundið þegar Sejad Salihovic minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu en Gonzalo Castro skoraði síðan fjórða mark Leverkusen með skalla og eftir það var allur vindur úr heimaliðinu.

Hoffenheim 4-1 Leverkusen

0-1 Helmes (3)

0-2 Rolfes (12)

1-2 Salihovic (31 víti)

1-3 Helmes (45+1)

1-4 Castro (47)

Hoffenheim er enn á toppnum í deildinni þrátt fyrir tapið og hefur hlotið 39 stig í 20 leikjum en nú er hinsvegar svo komið að bæði Bayern Munchen (38 stig) og Hertha Berlín (37 stig) geta komist upp fyrir liðið með sigri í leikjunum sem liðin eiga til góða.

Leverkusen er komið í fjórða sætið með 36 stig líkt og HSV, en nokkuð bil er niður í sjötta sætið þar sem Stuttgart situr með 31 stig.

Gladbach er sem fyrr á botninum með aðeins 12 stig og virðist dauðadæmt til að falla enn eina ferðina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×