Körfubolti

Fjórir þjálfarar velja stjörnuliðin í beinni á Sporttv

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfari kvennaliðs KR, hefur bara sex mínútur til umráða til þess að velja liðið sitt.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari kvennaliðs KR, hefur bara sex mínútur til umráða til þess að velja liðið sitt. Mynd/Vilhelm
Fjórir þjálfarar munu á morgun velja stjörnuliðin í Iceland Express deildum karla og kvenna og gera það undir mikill pressu, bæði tímapressu sem og að vera í beinni útsendingu á netinu. Líkt og oft áður verða það þjálfarar tveggja efstu liða deildanna sem fá að stjórna liðunum í Stjörnuleiknum sem fer að þessu sinni fram í Dalhúsum Grafarvogi 12. desember næstkomandi.

Þjálfarar kvennaliðanna eru Benedikt Guðmundson þjálfari KR sem stjórnar Iceland Express-liðinu og Ágúst Björgvinsson úr Hamri stjórnar Shell-liðinu. Iceland Express-liði karla stjórnar Njarðvíkingurinn Sigurður Ingumundarson og Guðjón Skúlason þjálfari Keflvíkinga stjórnar Shell-liðinu.

Þjálfararnir munu velja leikmenn liðanna í beinni útsendingu á Sporttv.is á morgun fimmtudag. Valið á kvennaliðunum hefst kl. 14:00 og karlaliðunum kl. 14:30.

Valið fer þannig fram að þjálfararnir velja til skiptis einn leikmann í einu og svo þannig koll af kolli þangað til að liðin verða fullskipuð. Hver þjálfari fær sex mínútur í heildina fyrir valið á sínu liði, skákklukka verður á staðnum sem þjálfararnir munu notast við. Þannig að mögulega eiga þeir nægan tíma þegar kemur að því að velja síðustu leikmennina eða verða í tímahraki sem verður að teljast líklegra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×