Íslenski boltinn

Sævar: Kom ekkert annað til greina en að klára þetta

Ómar Þorgeirsson skrifar
Sævar Þór Gíslason hefur farið á kostum með Selfossi undanfarin þrjú tímabil.
Sævar Þór Gíslason hefur farið á kostum með Selfossi undanfarin þrjú tímabil.

„Það er ekkert annað hægt en að fagna vel. Lokahófið okkar er í kvöld og Sálin að spila og allt bara í gangi," segir markvarðahrellirinn Sævar Þór Gíslason hjá Selfossi eftir 4-2 sigur gegn ÍA í lokaumferð 1. deildar í dag.

Selfoss hampaði 1. deildar titlinum fyrir vikið og Sævar Þór ítrekaði að ekkert annað hefði komið til greina en að klára dæmið með stæl.

„Þessi dagur er mjög stór í sögu Selfoss þar sem fyrir utan sigurinn í deildinni þá var verið að jarðsyngja einn dyggasta stuðningsmann Selfoss í dag. Hann sá okkur fara upp á móti Aftureldingu þar sem hann var sérstaklega keyrður af sjúkrahúsinu til þess að fara á leikinn og hann dó svo 10. september.

Það kom því ekkert annað til greina en að klára þennan leik fyrir hann," segir Sævar sem endaði tímabilið sem markakóngur deildarinnar með 19 mörk í 21 leik.

„Já, það var mikil pressa á mér að klára þetta með þrennu til þess að vera með mark að meðaltali í leik með Selfossi en ég er kominn með 56 mörk í 58 leikjum með Selfossi þessi þrjú tímabil síðan ég kom aftur. Það er ekki slæmt en ég á náttúrulega liðinu allt að þakka fyrir þetta.

Allt í kringum þetta lið er líka frábært og það er einstakt að fá að upplifa þetta á heimaslóðum," segir Sævar Þór sem hefur fullan hug á því að spila með Selfossi í efstu deild næsta sumar.

„Ef skrokkurinn verður í lagi, þá held ég áfram. Það er ekki spurning með það því hjartað mitt slær með þessu liði og hér líður mér best," segir Sævar Þór.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×