Körfubolti

Fjölnir einum sigri frá úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bárður Eyþórsson er langt kominn með að skila Fjölni aftur upp í efstu deild.
Bárður Eyþórsson er langt kominn með að skila Fjölni aftur upp í efstu deild.

Hið unga lið Fjölnis er að gera frábæra hluti á útivöllum í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta en liðið vann fyrsta leik lokaúrslitanna á móti Val í Vodafone-höll Valsmanna í kvöld.

Fjölnir getur tryggt sér sæti í Iceland Express deild karla með sigri á Val í öðrum leik lokaúrslitanna í Grarfarvogi á sunnudagskvöldið.

Fjölnir hafði frumkvæðið í leiknum allan tímann, var 41-36 yfir í hálfleik, 21 stigi yfir eftir þriðja leikhluta, 71-50, og vann að lokum tíu stiga sigur, 88-78.

Roy Smallwood var með 16 stig og 18 fráköst hjá Fjölni og Ægir Þór Steinarsson skoraði 16 stig og gaf 5 stoðsendingar. Sindri Kárason (13), Haukur Helgi Pálsson (12), Arnþór Freyr Guðmundsson (11) og Magnús Pálsson (11) skoruðu líka allir yfir tíu stig í Fjölnisliðinu.

Robert Hodgson, spilandi þjálfari Vals var þeirra stigahæstur með 20 stig en Alexander Dungal skoraði 13 stig.

Fjölnisliðið er þar með búið að vinna alla þrjá útileiki sína í úrslitakeppninni í ár en liðið sló Hauka út úr undanúrslitunum þar sem Grafarvogspiltar unnu Hauka tvisvar á Ásvöllum.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×