Fótbolti

Ronaldo: Er bjartsýnn á framtíð mína hjá Real Madrid

Ómar Þorgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo í leiknum gegn Shamrock Rovers.
Cristiano Ronaldo í leiknum gegn Shamrock Rovers. Nordic photos/AFP

Portúgalinn Cristiano Ronaldo lék sinn fyrsta leik með Real Madrid í gærkvöld þegar spænska stórliðið vann 0-1 sigur gegn írska liðinu Shamrock Rovers.

Karim Benzema skoraði mark Real Madrid en Ronaldo hafði hægt um sig í þær 45 mínútur sem hann spilaði í leiknum. Ronaldo er þó bjartsýnn með framhaldið.

„Þetta var fínn leikur og góð æfing. Við spiluðum gegn góðu liði og ég naut þess að spila leikinn. Ég hef engar áhyggjur af því að vera undir pressu, ég nýt þess að vera í sviðsljósinu og er bjartsýnn á framtíð mína hjá Real Madrid. Ég er ekki enn kominn í hundrað prósent leikæfingu en ég verð pottþétt tilbúinn þegar tímabilið hefst," segir Ronaldo.

Ronaldo hefur ekki áhyggjur af því hvar knattspyrnustjórinn Manuel Pellegrini ætlar að láta leikmanninn spila á vellinum.

„Mér er alveg sama. Ég vill bara spila og það skiptir mig engu máli hvort ég er á hægri eða vinstri væng eða á miðri miðjunni," segir Ronaldo.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×