Körfubolti

Helena valin í lið ársins í Mountain West deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Veggspjald Helenu á heimasíðu TCU-skólans:
Veggspjald Helenu á heimasíðu TCU-skólans: Mynd/Heimasíða TCU

Helena Sverrisdóttir var í gær valin í lið ársins í Mountain West deildinni í bandaríska háskólaboltanum. Auk Helenu eru tveir leikmenn frá Utah og San Diego í liði ársins.

Helena varð aðeins þriðji leikmaður TCU-skólans frá upphafi sem kemst í fimm manna úrvalslið ársins frá því að liðið fór að keppa í Mountain West deildinni.

Í fyrra var Helena valin nýliði ársins í deildinni sem og að vera í hópi þeirra leikmanna sem komust næst því að vera í fyrsta eða öðru úrvalsliði deildarinnar.

Í vetur var Helena meðal sjö hæstu í fjórum tölfræðiþáttum. Hún var 2. í stoðsendingum (4,7 í leik), 3. í stigaskorun (16,0) og sjöunda í bæði fráköstum (7,2) og stolnum boltum (1,69).

TCU átti mjög góðan endasprett í deildinni en liðið vann 7 af 8 síðustu leikjunum sínum og þar á meðal bæði efstu liðin San Diego State og Utah.

Þetta var ekki eina viðurkenningin sem Helena fékk í vikunni því hún var valin besti leikmaður vikunnar í þriðja sinn á tímabilinu. Helena var einnig kosin leikmaður vikunnar 8. desember og 9. febrúar. Helena hefur nú fimm sinnum hlotið þessa viðurkenningu í Mountain West deildinni.

Helena og félagar leika sinn fyrsta leik í úrslitakeppninni þegar liðið mætir UNLV-skólanum. Sigurvegari leiksins mætir San Diego State í undanúrslitum á föstudaginn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×