Fótbolti

Það væri geðveiki að kaupa Cristiano Ronaldo á 18 milljarða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo hjá Manchester United.
Cristiano Ronaldo hjá Manchester United. Mynd/AFP

Juan Onieva, frambjóðandi í forsetakosningum hjá spænska liðinu Real Madrid, hefur sínar skoðanir á eltingarleik félagsins við Portúgalann Cristiano Ronaldo hjá Manchester United.

Juan Onieva segist vita af samkomulagi Ramon Calderon, fráfarandi forseta Real Madrid, en talaði jafnframt um að það væri engin skuldbinding hjá hvorugu félaginu og að báðir aðilar gætu hætt við fyrir 30. júní.

„Ég myndi ekki samþykkja þessi kaup og að mínu mati er það geðveiki að kaupa Ronaldo fyrir svona mikinn pening," sagði Onieva sem sagði kaupverðið vera aðeins minna en hundrað milljónir evra vegna þess að samningurinn var gerður í enskum pundum.

„Það er ekki rétt að eyða slíkri upphæð á tímum sem þessum. Þetta er nánast móðgun og ekki rétta leiðin fyrir Real Madrid," sagði Onieva í þessu útvarpsviðtali.

Onieva keppir við Florentino Perez, fyrrum forseta Real, og Eduardo Garcia um að verða næsti forseti Real Madrid. Kosningarnar fara fram 14. júní næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×