Fótbolti

Eru Svíar aldrei þreyttir á morgnana?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Gunnarsdóttir með Íslandsbikarinn .
Guðbjörg Gunnarsdóttir með Íslandsbikarinn . Mynd/Stefán

Sænska kvennafótboltaliðið Djurgården er nú statt í æfingabúðum á Algarve í Portúgal og á heimasíðu félagsins má lesa dagbók liðsins á meðan dvöl þess stendur.

Þar er meðal annars skotið grimmt á íslenska landsliðsmarkvörðinn Guðbjörgu Gunnarsdóttur sem er greinilega skotspónn reyndari leikmanna eins og oft er hátturinn á hjá nýliðum.

Í nýjustu dagbókarfærslunni er talað um að Guðbjörgu hafi ekki fundist það teljast að fá að sofa út þegar hún þurfti að vakna klukkan átta um einn morguninn. Djurgården-liðið æfir tvisvar á dag og tekur morgunmatinn snemma dags.

Guðbjörg var síðan sögð furða sig á því af hverju Svíar séu aldrei þreyttir á morgnana. Í einum pistlinum er síðan birt dramatísk mynd af Guðbjörgu einni og yfirgefinni í lyftingarsalnum.

Það má segja að Algarve verði annað heimili Guðbjargar á næstunni því um leið og æfingabúðunum líkur þá tekur við Algarve-bikarinn með íslenska landsliðinu. Áður en kemur að því mun þó Djurgården spila æfingaleik á móti bandaríska landsliðinu á laugardaginn þar sem leiktíminn verður 3 x 30 mínútur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×