Körfubolti

Þór féll í 1. deildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Jónsson og félagar í Þór leika í 1. deildinni á næsta ári.
Guðmundur Jónsson og félagar í Þór leika í 1. deildinni á næsta ári. Mynd/Anton

Í kvöld fór fram lokaumferð í Iceland Express deild karla og er það ljóst eftir leiki kvöldsins að Þór er fallið í 1. deildinni eftir að liðið tapaði fyrir deildarmeisturum KR, 108-94.

Þór fékk alls tólf stig í deildinni, tveimur minna en FSu sem þar með hélt sæti sínu á sínu fyrsta ári í deildinni. FSu tapaði reyndar fyrir Stjörnunni í kvöld, 78-72.

Skallagrímur var löngu fallið fyrir lokaumferðina enda aðeins með fjögur stig. Skallagrímur mætti Keflavík á útivelli í kvöld og tapaði stórt, 123-77.

Þar með tryggði Keflavík sér endanlega fjórða sæti deildarinnar og þar með heimavallarréttin í fyrstu umferð úrslitakeppninnar er liðið mætir grönnum sínum í Njarðvík.

Keflavík hefði reyndar mátt tapa leiknum í kvöld þar sem að Njarðvík tapaði fyrir Snæfelli í Stykkishólmi, 96-80.

Grindavík vann í kvöld sigur á ÍR í Seljaskóla, 98-89, og þar með er það ljóst að þessi tvö lið munu eigast við í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Grindavík varð í öðru sæti með 38 stig en ÍR í því sjöunda með 20, rétt eins og Stjarnan.

Stjörnumenn eru þó með betri árangur í innbyrðisviðureignum liðanna og mæta því Snæfellingum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

KR mætir Breiðabliki í fyrstu umferðinni eftir æsilegan sigur Blika á Tindastóli, 84-81, eftir æsispennandi lokamínútur eins og lesa mátti um í beinni lýsingu Vísis frá leiknum.










Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×