Körfubolti

Veikindi hjá karlalandsliðinu í körfubolta

Ómar Þorgeirsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson er tæpur fyrir leikinn í kvöld.
Jón Arnór Stefánsson er tæpur fyrir leikinn í kvöld. Mynd/Arnþór

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta stendur nú í ströngu í undirbúningi sínum fyrir leikinn gegn geysisterku landsliði Svartfellinga í B-deild Evrópukeppninnar ytra í kvöld. Fannar Ólafsson varð eftir heima á Íslandi eftir að hafa veikst um helgina og sömu sögu er að segja af Sveinbirni Claessen.

„Fannar var kominn með fjörtíu stiga hita á sunnudagskvöld og gat því ekki gefið kost á sér. Sveinbjörn Claessen átti þá að fara með í hans stað en hann var þá líka orðinn veikur og treysti sér ekki í ferðalagið. Það er erfitt að segja hvort um er að ræða þessa svinaflensu eða eitthvað annað. Ég talaði við Fannar í dag og hann sagði mér að læknarnir væru ekki enn búnir að taka sýni eða neitt slíkt og honum var bara ráðlagt að taka því rólega," sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, framkvæmdarstjóri KKÍ í samtali við Vísi.

Nú er útlit fyrir að hvorki Jón Arnór Stefánsson né Jóhann Árni Ólafsson geti heldur leikið vegna veikinda.

„Landsliðsþjálfarinn tjáði mér í dag að hvorki Jón Arnór né Jóhann Árni hefðu getað æft í morgun og ég hugsa að ef þeir verði tæpir fyrir leikinn þá muni þeir ekki spila. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að vera að pína þá í þennan leik og taka þar með áhættuna á að þeir muni missa af leiknum gegn Hollandi um næstu helgi," sagði Friðrik Ingi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×