Skoðun

Hátæknisjúkrahús

Jón Gunnarsson skrifar um sjúkrahús

Hörð viðbrögð hafa víða komið vegna tillagna heilbrigðisráðherra um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu. Hlutverk hans við þær erfiðu aðstæður sem nú eru í samfélaginu er ekki öfundsvert. Málaflokkurinn er mikilvægur og sterkar tilfinningar eru gagnvart sjúkrastofnunum.

Framtíðaráætlanir gera ráð fyrir að byggt verði hátæknisjúkrahús í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Um er að ræða einhverja dýrustu framkvæmd sem farið hefur verið í hérlendis. Á fjárlögum þessa árs er reiknað með 400 milljónum í undirbúningsvinnu vegna verkefnisins. Áætlaður byggingarkostnaður er á reiki en talað er um að hann verði ekki langt frá 100 milljörðum króna. Þá er ótalinn mikill kostnaður vegna nauðsynlegra samgöngumannvirkja sem óhjákvæmilegt verður að byggja samhliða.

Ég hef alla tíð verið efins vegna þessarar stefnu og tilheyrt þeim hópi sem hefur viljað skoða þá leið að efla og sérhæfa starfsemi stærri sjúkrahúsa á nokkrum stöðum á landinu þ.m.t. svokölluð kragasjúkrahús. Margur ávinningur er af þeirri leið og deildar meiningar eru um rekstrarhagræði af einni stórri stofnun sem tæki til sín stóran hluta verkefna og fjármagns. Efling minni sjúkrastofnana eflir læknisþjónustu í héraði, veitir persónulegri og skilvirkari þjónustu.

Einnig má rökstyðja að ákveðin samkeppni sem myndast milli stofnana auki líkur á betri nýtingu þess fjármagns sem þær hafa til ráðstöfunar. Í umræðum síðustu daga hafa fulltrúar sveitarfélaga, þar sem staðsettar eru sjúkrastofnanir, komið fram og lýst yfir áhuga á að taka yfir rekstur þeirra. Sú hugmynd er allrar athygli verð og kemur heim og saman við þá skoðun að nærþjónusta við íbúana sé betur komin í höndum sveitarfélaga.

Breytingar í íslensku samfélagi kalla á endurmat þess hvert stefna skuli í málefnum sjúkrastofnana. Áður en margar þeirra hugmynda sem heilbrigðisráðherra hefur kynnt koma til framkvæmda þarf að endurmeta stöðuna. Á meðan er nauðsynlegt að fresta öllum ákvörðunum um að leggja í frekari framkvæmdir við hátæknisjúkrahús.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×