Körfubolti

Vinnum ef við spilum okkar leik

Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir, leikmaður Keflavíkur
Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir, leikmaður Keflavíkur
Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Keflavíkur, segir að liðið eigi góða möguleika í bikarúrslitaleiknum við KR ef það nær að spila sinn leik.

KR og Keflavík mætast í úrslitaleik Subwaybikarkeppni kvenna í Laugardalshöllinni klukkan 14.00 í dag.

"Mér líst mjög vel á þennan leik og við erum allar tilbúnar í hann. Æfingarnar undanfarið hafa gengið mjög vel og það hefur verið mikill stígandi í þessu hjá okkur," sagði fyrirliðinn brosmildi í samtali við Vísi.

"Við erum ekki búnar að vera að spila sérstaklega vel síðustu tvo leiki þannig að við ætlum að mæta bara brjálaðar á sunnudaginn. Við duttum út í undanúrslitum í fyrra og erum búnar að missa af deildarmeistaratitlinum í ár, þannig að við erum staðráðnar í að vinna þetta. Við verðum að vera alveg tilbúnar, því það hefur sýnt sig að við erum ekkert góðar ef við erum það ekki," sagði Ingibjörg.

Hún segist eiga von á erfiðum leik gegn KR en segir vörnina lykilatriði til sigurs.

"KR liðið berst alltaf út í eitt og hættir aldrei. Þær eru með nokkra góða leikmenn en við hugsum bara fyrst og fremst um okkur. Þetta byrjar allt í vörninni hjá okkur og þá kemur sóknin venjulega í kjölfarið. Það stöðvar okkur enginn ef við spilum okkar leik," sagði Ingibjörg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×