Fótbolti

Valencia staðfestir að kauptilboð hafi borist í Villa - Líklega frá Chelsea

Ómar Þorgeirsson skrifar
David Villa í leik gegn ítalska landsliðinu.
David Villa í leik gegn ítalska landsliðinu. Nordic photos/Getty images

Manuel Llorente forseti Valencia hefur staðfest að kauptilboð hafi borist félaginu í framherjann David Villa og að það komi frá félagi utan Spánar.

Real Madrid var talið vera að vinna kapphlaupið um landsliðsmanninn spænska en eftir að hafa keypt Kaka og vera með staðfest kauptilboð í Cristiano Ronaldo, þá gæti verið að önnur lið komist fram fyrir þá í goggunarröðinni.

„Já, okkur hefur borist kauptilboð í David Villa en það er frá félagi utan Spánar," segir Llorente í samtali við Las Provincias.

Samkvæmt spænskum fjölmiðlum er kauptilboðið talið vera frá Chelsea en Manchester United, Manchester City og AC Milan eru öll sögð hafa áhuga á að klófesta leikmanninn.

Ekki hefur enn verið staðfest hvort Valencia ætli að taka kauptilboðinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×